Rými
Þó maður átti sig ekki endilega á því í daglegu lífi er manngert rými hannað til þess að maður fylgi ákveðinni braut. Form, litir og uppröðun verka á okkur þannig að næsta skref á að vera augljóst. Oft er þetta svo lúmskt að þú hefur ekki hugmynd um að það er verið að stýra þér ákveðna leið en öðrum stundum hrópandi augljóst — eins og örvarnar í gólfinu í IKEA eða vandlega uppröðuð völundarhús á flugvöllum.
Þegar maður notar hjólastól líður manni stundum eins og óboðnum gesti sem mætir á kvöldverðartíma og hlammar sér við eldhúsborðið þegar maður er í almannarými. Það er ekki svo langt síðan ég áttaði mig á því að þetta er ekki upplifun sem margir deila. Til dæmis að fara inn á veitingastaði í gegnum port, inn um eldhús og lager, og missa eiginlega matarlystina áður en þú ert sestur við borðið. Tilfinningin að sjá ekki útsýnið og arkitektúrinn eins og hinir. Að vandræðast um hús í leit að lyftu því rýmishönnin beinir þér aðeins á stigann.
Biðstofur á heilsugæslum og spítölum eru svæði sem búa til mjög skrítna tilfinningu um að vera fyrir. Auðvitað getur bið eftir lækni búið til einhvers konar óþreyju en það er ekki það sem ég á við. Það eru nefnilega aldrei sérstök svæði á biðstofum fyrir fólk sem notar hjólastól svo þetta eru rými þar sem ég er stöðugt á varðbergi og til vandræða. Dansandi um rýmið.
Á ég að leggja á miðjum ganginum, þrengja hann þar með enn frekar, og blokka jafnvel tvo eða þrjá stóla í leiðinni? Á ég að giska á hvaða hurð er ólíklegust til að opnast beint á mig og vera þar? Ef ég fer hér út í horn eða kem mér fyrir á hliðargangi, heyri ég þá þegar nafnið mitt er kallað? Vakandi fyrir því að starfsmaður komi arkandi með vagn eða sjúkrarúm. Vakandi fyrir rýminu allan tímann.
Það er ótrúlega sterk og eftirminnileg tilfinning að vera fyrir og ég held að hún stafi ekki endilega af einhverri meðvirkni (þó ég eigi hana til) né heldur af því að fólkið í kringum mig sé svo illgjarnt að það láti mér líða eins og ég sé fyrir. Þessi sterka tilfinning — sem ég man eftir frá því að ég var pínulítil í agnarsmáum hjólastól — er kannski til komin vegna þess að það er sjaldan pláss fyrir mig. Ég passa mjög illa inn í rými sem gera ráð fyrir gangandi fólki; eins útreiknuð og þaulhönnuð og þau eru — bara ekki fyrir mig. Ég hef því alltaf verið mjög meðvituð um pláss — eða skort á því öllu heldur. Ég sé þröngu leiðirnar, hindranirnar, hornin til að bakka inn í og heilinn minn veit nákvæmlega hvað ég þarf mikið pláss til að sleppa í gegn þó ég viti ekki sentímetrana. Finn mér leið um rýmin sem eru ekki fyrir mig. Það er eitthvað svo mikil þversögn fólgin í því að rými sé svona líkamlegt og eirðarlaust.