Hinsegin

Ég hef aldrei áður sagt söguna um hinseginleika minn opinberlega. Ég kom ekki „út úr skápnum“ eins og það er oft orðað, fyrr en árið 2017 þegar ég kynntist stelpu sem síðar átti eftir að verða eiginkona mín. Það var ekki formleg athöfn að „koma út“, ég átti bara allt í einu kærustu. Eins fáránlegt og það hljómar vissi ég einfaldlega ekki að ég væri hinsegin fyrr en ég var rúmlega tvítug. Ég laðast nefnilega að fólki óháð kyni þess, en mér fannst bara algjörlega óþarfi að vera að lifa í samræmi við það sem hjartað sagði mér, fyrst ég hefði nú val um að vera ekki hinsegin. Það sem ég fattaði síðar er að ég var alltaf hinsegin. Líka þegar ég átti kærasta en ekki kærustu. Og ég verð alltaf hinsegin. Þetta snerist annað hvort um að fela fallegan, dásamlegan og sannan hluta af sjálfri mér eða að vera trú sjálfri mér, stolt og laus við ótta.

Upphaf þess að ég áttaði mig á því að ég var hinsegin má rekja til þess að ég varð hluti vinahópi þar sem mörg voru hinsegin — og allt í einu fattaði ég að ég væri líka hinsegin. Ég efast mjög um að ég hefði tekið skrefið ef ég hefði haldið áfram að vera einungis í vinahópum með gagnkynhneigðu fólki, því mig vantaði fólk til að spegla mig í. Mig vantaði að sjá og finna fyrir hinseginleikanum til að þora að velta þessum möguleika fyrir mér. Ég hef oft hugsað með þakklæti til þeirrar staðreyndar hve auðvelt það var að „koma út.“ Það var enginn sem tók andköf og ég upplifði enga fordóma af hálfu vina og fjölskyldu minnar.

Bakslagið

Síðustu vikur hef ég í fyrsta skipti á ævi minni upplifað ótta af þeirri einföldu ástæðu að ég er kona, gift konu sem ég á son með og saman myndum við ástríka fjölskyldu í úthverfi, með hund, bíl og húsnæðislán.

Auðvitað vissi ég að mannréttindi og stuðningur samfélagsins gætu hrokkið til baka, en breytingin varð svo hröð að mig hefði ekki óráð fyrir þessu fyrir ári síðan. Síðustu daga hafa samfélagsmiðlar logað af hatri og áróðri gegn hinsegin fólki, undir þeim formerkjum að vernda börnin. Lýsingarnar hafa verið á kreiki svo áratugum skiptir — um að hinsegin fólk sé pervertískt, það sé haldið barnagirnd og það beiti heilaþvotti til að gera aðra hinsegin líka. Ég hélt að þessi viðhorf hefðu verið skilin eftir á 20. öldinni en miðað við holskeflu Facebook færslna síðustu daga og vikur, þá virðast þessar mýtur lifa góðu lífi.


Hér er hægt að lesa grein frá Samtökunum '78 um hinsegin fræðslu samtakanna.

Hinsegin fræðsla er nauðsynleg. Hún er ekki kynfræðsla eða kynlífsfræðsla eins og nú er skrifað um af miklu kappi heldur fræðsla um margbreytileika, mannréttindi og gleðina að vera maður sjálfur. Hún er nauðsynleg svo þau okkar, sem erum með lítinn regnboga í hjartanu leyfum okkur að skoða hann af væntumþykju. Fræðsla er nauðsynleg fyrir þau sem ramba kannski aldrei á hinsegin fjölskylduna sína, eins og ég var svo heppin að gera, sem leiðir þau út úr skápnum. Það verður enginn trans eða samkynhneigður á að heyra um lífsreynslu annarra, en það getur skipt sköpum fyrir trans eða samkynhneigð ungmenni að heyra um lífsreynslu annarra. Vinir mínir þvinguðu mig ekki til þess að verða hinsegin, þau gáfu mér einfaldlega rými til að vera ég sjálf, því þau skildu mig.

Ég er niðurbrotin að sjá hve margt fólk sem ég þekki, fólk sem mér þótti vænt um og hef hingað til treyst, er tilbúið að trúa og dreifa óhróðri og lygum um hinsegin fólk og Samtökin ‘78.

Hvað þýðir þetta bakslag? Er ég örugg úti á leikvelli með fjölskyldunni minni? Er skynsamlegt að leiða konuna mína á almannafæri? Eru vinir mínir sem vinna hjá Samtökunum ‘78 örugg? Hvenær breytist stigvaxandi hatrið í líkamlegt ofbeldi?

Netið getur verið bergmálshellir en þegar fólk er farið að ryðjast inn í grunnskóla, boða til mótmæla og ráðast að hinsegin fólki, þar á meðal börnum, og skipuleggja ofbeldisglæpi, hika ég. Þá hika ég, þó ekki sé nema í örskotsstundu, að taka í hönd konu minnar á göngu um bæinn. Þá hika ég, þó ekki sé nema í örskotsstundu, að leiðrétta fólk sem gerir ráð fyrir að sonur minn eigi pabba en ekki tvær mömmur. Þá hika ég, þó ekki sé nema í örskotsstundu, að skrifa um að vera hinsegin — en geri það samt.

Previous
Previous

Rými

Next
Next

Opnun Hinsegindaga