Opnun Hinsegindaga
Ég fékk þann heiður að segja nokkur orð við setningu Hinsegin daga (Reykjavík Pride) 2023. Ég hugsa með þakklæti til þeirra sem ruddu veginn, þeirra sem lifðu ekki af, þeirra sem þjást í dag og ég heiti því að hætta aldrei að krefjast réttlætis fyrir hinsegin systkini mín.
„Í dag komum við saman til að fagna samfélagi hinsegin fólks, lítum yfir farinn veg og allt það sem hefur áunnist. En um leið stöndum við sameinuð til að minna samfélagið á að baráttunni fyrir jöfnum réttindum og frelsi hinsegin fólks er hvergi nærri lokið.
Stór skref hafa verið tekin, en við mætum enn fordómum, mismunun, ofbeldi og hatri. Síðasta ár hefur verið sérstaklega erfitt mörgu hinsegin fólki, með fjölgun hatursglæpa og hatursorðræðu, eyðileggingu hinsegin tákna, aukningu transhaturs og skipulagningu hryðjuverka á síðasta Pride — eitthvað sem mörg héldu að væri óhugsandi í okkar friðsæla jafnréttisríki.
Það getur verið erfitt fyrir þau sem aldrei hafa upplifað útskúfun að skilja þýðingu inngildingar og jafnréttis. „Er ekki nóg komið?“ hrópar fólk og segir að um innrætingu og heilaþvott sé að ræða. Þau munu aldrei skilja hvernig það er að vera jaðarsettur vegna þess hvernig þú tjáir þig, hvern þú elskar, lítur út. Að vera á jaðrinum vegna þess hver þú ert. Hve einmanaleg og sársaukafull sú reynsla er.
Í dag krefjumst við réttlætis. Við munum ekki leyfa stjórnmálamönnum og stórfyrirtækjum að skreyta sig hinsegin fjöðrum á meðan hinsegin samfélagið þarf að þola aukið hatur, auknar ofsóknir og ofbeldi. Við höldum baráttunni áfram þar til hvert einasta systkini hinsegin samfélagsins er frjálst til að vera nákvæmlega eins og það er.
Það er óviðjafnanlegt að brjótast út úr þröngum hlutverkum samfélagsins og væntingum þess. Um hvern við megum elska, hvernig við megum líta út og hvernig fjölskyldur okkar mega vera. Hinsegin leiðin er skapandi og frjáls; hún elskar og samþykkir skilyrðislaust. Samfélagið getur einungis grætt á umburðarlyndinu og frelsinu sem hinsegin leiðin felur í sér: að skapa sér samfélag sem fagnar og umfaðmar fjölbreytileikann og frelsið til að vera maður sjálfur.
Bakslagið er óskiljanlegt og við megum ekki leyfa því að gera regnbogann okkar gráan. Nú er tíminn til að sýna breidd okkar og styrkleika, til að sýna þá staðreynd að við munum aldrei bakka. Eyðilegging tákna okkar, ofbeldi og hatursorðræða mun ekki þvinga okkur í felur. Ábyrgð okkar, sem samfélagið samþykkir að einhverju leyti, er að stíga fast niður til jarðar fyrir systkini okkar sem búa við meiri jaðarsetningu. Svo öll megi lifa frjáls og án ótta. Láta þau vera okkur innblástur í sannri og frjálsri tjáningu, uppbroti á því sem samfélagið álítur eðlilegt.
Stöndum sterk og sameinuð, og höldum baráttunni áfram. Takk fyrir og gleðilega hátíð.“
Hér er hægt að skoða metnaðarfulla dagskrá Hinsegin daga 2023.