Fatlað fólk og flug: að fljúga í hjólastól
Það eru forréttindi að ganga inn í flugstöð fullur tilhlökkunar um ævintýrin framundan. Fyrir þau sem nota hjólastól getur hins vegar verið mjög kvíðvænlegt að ferðast með flugvélum.
Ég hef verið í hjólastól frá því að ég var barn og hef því þurft að ganga í gegnum ferlið að fljúga í hjólastól þó nokkuð oft. Hér eru nokkur góð ráð fyrir fólk sem notar hjólastól, og aðstandendur þess, og er á leið í flug.
Fyrirvari: öll ráðin eru byggð á eigin reynslu og ég get ekki ábyrgst að þau séu rétt eða að reglur hafi ekki breyst frá því að þetta er skrifað/uppfært (ágúst 2023). Reynsla mín byggir á rafmagnshjólastól, þó ég hafi einnig ferðast með manual hjólastól.
Undirbúningur þegar flogið er í hjólastól
Það skiptir miklu máli að gefa sér góðan tíma í undirbúning til þess að tryggja að flugið og ferðalagið allt gangi sem best. Hafðu þó í huga að sama hversu vel þú undirbýrð þig, þá kemur oft eitthvað upp sem þú getur ekki séð fyrir og það er ekki við þig að sakast!
Að bóka flug og aðstoð
Ef þú þarft aðstoð að komast um borð í flugvélina skaltu hafa samband við flugfélagið um leið og þú pantar flug og útskýra hvers konar hjálp þú þarft. Það er mismunandi þjónusta í boði, og hún er kölluð PRM (Passengers with Reduced Mobility) services. Vertu óhrædd/ur/tt við að gera kröfur! Þú átt rétt á að ferðast og upplifa heiminn eins og aðrir, og þarft ekki að skammast þín fyrir að þurfa aðstoð.
Ítrekaðu svo að þú þarft aðstoð og að þú sért með hjálpartæki meðferðis 48 klukkustundum fyrir flugtak.
Hjálpartæki
Það er sniðugt að senda upplýsingar fyrirfram um hjálpartækin (rafhlöður, þyngd, hæð, breidd og lengd) sem þú ferðast með, og aðrar spurningar sem þú hefur. Best er að hafa öll samskipti skrifleg, t.d. í tölvupósti eða á samfélagsmiðlum svo þú getir sýnt fyrri samskipti ef þú lendir í vandræðum á flugvellinum.
Prentaðu út vottorð um batteríin (þú getur nálgast þau hjá innflytjanda hjálpartækisins) og hafðu allar upplýsingar um þau á vísum stað fyrir innritun.
Hér getur þú lesið um flutning rafknúinna hjálpartækja frá Alþjóðasambandi flugfélaga, IATA.
Þegar þú kemur á flugvöllinn
Það er nauðsynlegt að mæta snemma á flugvöllinn og ég hef miðað við 2,5–3 klst. fyrir flugtak. Þegar þú kemur í check-in þarftu að gefa upplýsingar um hjólastólinn þinn. Ef þú notar rafmagnshjólastól eða önnur rafknúin hjálpartæki skiptir miklu máli að þú vitir hvernig rafhlöðurnar eru, hversu mörg vött þau eru og hvað hjólastóllinn/hjálpartækið er þungt. Á sumum hjálpartækjum er hægt að taka rafhlöðurnar úr, en í sumum er hægt að slökkva á þeim / slá þeim út. Láttu vita hvernig þú ætlar að undirbúa hjólastólinn / hjálpartækið.
Þú mátt vera í þínum hjólastól alveg að landgangi. Ekki hlusta á neitt tal um að það sé flókið eða erfitt fyrir starfsfólk! Þetta er hluti af vinnunni þeirra. Ítrekaðu hvernig aðstoð þú þarft til að komast um borð í flugvélina þegar þú checkar þig inn og spurðu hvenær þú átt að vera kominn að hliðinu. Yfirleitt þarf að vera kominn klukkustund fyrir flugtak að hliðinu og þá er mikilvægt að vera með nægan tíma til að borða, nota salerni og versla.
Að undirbúa hjólastól fyrir flugtak
Það er sniðugt að taka alla lausa hluti af hjólastólnum, t.d. sessur, fótafjalir, höfuðstuðning, og annað sem gæti týnst eða brotnað auðveldlega. Ef þetta er rafmagnshjólastóll, skaltu lækka hann í lægstu stöðu, draga fótafjalir í innstu stöðu og nota öll ráð sem þú hefur til að gera hann eins lítinn og mögulegt er. Taktu því næst rafhlöðuna úr eða rafmagnið af og settu í hlutlausan gír svo starfsfólkið geti ýtt honum.
Það er sniðugt að festa spjald á stólinn með upplýsingum um eigandann, að rafmagnið hafi verið tekið af honum og að það sé hægt að ýta honum þó það sé ekki nauðsynlegt.
Að komast um borð í flugvélina
Þessi þáttur í ferðalaginu er ólíkur eftir því hvernig fötlun þín er, og fer einnig eftir þjónustu og verklagi á hverjum flugvelli.
Allar líkur eru á að þú farir fyrst um borð. Mín reynsla er að þetta sé í næstum öllum tilfellum gert á tvennskonar hátt.
1) Flugvélin er við landgang og þar bíður þú eftir að PRM starfsfólkið komi og aðstoði þig um borð. Þú ekur hjólastólnum þínum alveg að inngangi flugvélarinnar og þaðan er þér lyft yfir í svo kallaðan gangastól, sem er pínulítill og kemst inn ganginn í flugvélinni.
2) Þú ferð inn í lyftubíl á hjólastólnum þínum, lyftubílinn keyrir alveg upp að flugvélinni og hækkar sig upp að inngangi vélarinnar. Inni í lyftubílnum er þér lyft yfir í gangastólinn.
Næst ferðu inn í flugvélina og þér er lyft úr gangastólnum yfir í flugvélasætið. Best er að panta sæti eins framarlega í flugvélinni og þú mátt sitja (ath. ef þú ert fatlaður máttu ekki sitja við neyðarútgang).
Um borð í vélinni
Mér skilst að það sé hægt að komast á salerni í flugvélum (og þú átt í raun rétt á því). Það er lítill hjólastóll um borð til að færa sig úr sæti sínu og yfir á salernið. Flestir sem ég hef rætt við nota þau ekki því þau eru of lítil, og ég sjálf drekk eins lítinn vökva og ég kemst upp með daginn sem ég ferðast svo ég þurfi ekki að nota salerni um borð í vélinni.
Gott er að spyrja yfirflugþjóninn hvort það sé ekki öruggt að þú fáir PRM þjónustu til að komast frá borði á áfangastað. Þá getur flugstjóri haft samband við flugstöðina og gulltryggt að þjónustan sé pöntuð og að þú fáir hjólastólinn að landgangi.
Við lendingu
Þegar flugvélin lendir þarft þú að bíða eftir að vélin tæmist og svo geta oft liðið ca. 15-40 mínútur þangað til að PRM starfsfólkið kemur til að aðstoða þig. Gott er að gera ráð fyrir þessu sem hluta af ferðatímanum.
Þá tekur við sama ferli og um borð og þú átt rétt á að fá hjólastólinn þinn að inngangi flugvélarinnar.
Réttindi þín
Hér er reglugerð um réttindi flugfarþega með skerta hreyfigetu
Þar kemur fram að þú átt rétt á:
Aðstoð ef þú hefur látið vita með 48 klst. fyrirvara og það á við um bæði flugin ef þau eru á vegum sama flugfélags. Ef þú lést ekki vita á flugfélagið samt að reyna að koma til móts við þarfir þínar eftir bestu getu.
Að hafa hjólastólinn þinn alveg að inngangi flugvélar og fá hann afhentan að inngangi.
Að taka með þér tvö hjálpartæki auk búnaðar sem er þér mikilvægur vegna heilsu þinnar (athugaðu þó reglur um stærð og þyngd farangurs og hafðu samband við flugfélagið ef þú ert óviss).
Að hafa með þér tösku um borð án endurgjalds ef hún inniheldur hluti sem eru þér nauðsynlegir vegna fötlunar eða veikinda þinna.
Á fjárhagslegri þóknun ef hjálpartæki skemmast eða týnast.
Að þitt aðstoðarfólk / ferðafélagar aðstoði þig.
Ef upp koma aðstæður og þú þarft að breyta nafni á flugmiða aðstoðarfólks, t.d. vegna forfalla eða veikinda, skaltu kanna nafnabreytingu. Flugfélög hafa mismunandi reglur um nafnabreytingar, en dæmi eru um að bæði Icelandair og Play air hafi leyft slíkt á miðum aðstoðarfólks fatlaðs fólks.