Lýðræðið er pulsa
Pistillinn var fyrst fluttur í Víðsjá á Rás 1 í október 2018.
Mynd: RÚV
Mikilfengleg en hógvær situr Litla hafpulsan í sunnanverðri Reykjavíkurtjörn og hefur eflaust vakið athygli þeirra sem gengið hafa um miðbæ borgarinnar síðustu daga. Pulsan er tveggja metra hár skúlptúr eftir Steinunni Gunnlaugsdóttur sem opinberaður var á listahátíðinni Cycle sem fram fór helgina 25. –28. október.
Yfirskrift hátíðarinnar í ár var Þjóð meðal þjóða eða á ensku, Inclusive Nation. Þemað var aldarafmæli fullveldis Íslands, nýlendur, hugmyndir um þjóðerni og sjálfsmynd þjóða, hnattvæðingu, kynþætti og tungumál. Þá var, eins og enska yfirskriftin gefur til kynna, hugmyndir um inngildingu ríkjandi — en inngilding er tilraun til þýðingar á orðinu inclusive. Það merkir að tilheyra, það að tillit sé tekið til allra hópa og þeim tryggt félagslegt aðgengi. Cycle teygir sig í tíma og rúmi og er virkt rannsóknarferli með tveggja ára aðdraganda að sögn skipuleggjenda. Hún er spunnin út frá hátíð síðasta árs sem og sýningu sem haldin var í Berlín í sumar um sama efni. Cycle heldur því áfram að þróast og mótast eins og samfélagið sjálft. Þó stór hluti verkanna sé gamansamur ætti engum að dyljast að undirtóninn er grafalvarlegur. List sköpuð í alheimssamfélagi þar sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar um allan heim ala á sundrungu milli þjóðar- og kynþáttahópa, ofbeldisglæpir gegn jaðarhópum aukast og allt virðist eiginlega vera að fara til fjandans.
Uppgjör við samband nýlendu og nýlenduherra
Verk Julie Edel Hardenberg sem býr og starfar í Nuuk í Grænlandi er tilraun til að gera upp flókið samband Grænlands og Danmerkur, nýlendunnar og nýlenduherrans. Verkið sem hún sýnir í Gerðasafni kallast Bældar sögur og sýnir danska fánann en svart mannahár hefur verið ofið í hann og stendur út úr fánanum. Dökkt hár, sem táknar grænlensku þjóðina, brýtur sér leið í gegnum sléttan og glansandi flöt fánans. Verkið er afar áhrifaríkt, eins og hvísl heillrar þjóðar geti rofið þögn í frásögn nýlenduherrans um söguna. Önnur verk takast á við kúgunina eins og hún birtist okkur í íslenskum samtíma. Melanie Ubaldo er fædd í Filipseyjum en býr og starfar í Reykjavík, og lærði við Listaháskóla Íslands. Verk hennar ber heitið Er einhver Íslendingur að vinna hér? og er það fyrsta sem tekur á móti fólki þegar stigið er inn í Gerðasafn. Verk hennar er gífurlega stórt, textílflötur samsettur úr smærri einingum og á honum er texti. Handbragðið segir hún í nýlegu viðtali við tímaritið Grapevine, að hún hafi lært af móður sinni. Í Filippseyjum tíðkist að nýta gamalt tau og búa til úr þeim mottur. Handbragðið er óheflað og textinn er það í raun líka. Þau byggja á reynslu hennar af kynþáttafordómum á Íslandi.
- Er einhver Íslendingur að vinna hér? - Já. Ég til dæmis. - Nei. Ég meinti einhver sem fæðist hér.
Orð sögð í hugsunarleysi og hversdagslegir kynþáttafordómar eins og Melanie orðar það sjálf. Þau vekja hinn almenna borgara til umhugsunar um hvernig orð hafa áhrif og hver hefur valdið. Verkum hennar tekst að vera glettin en áleitin á sama tíma.
Tilraunir til menningarlegrar fjölbreytni
Áhugi listheimsins á hnattvæðingu, fjölmenningu og eftirlendufræðum er ekki nýr af nálinni og nær áratugi aftur. Hnattvæðingin jafnvel orðin klisja, svo margtuggið er hugtakið. Við tengjumst og heimurinn smækkar, en á sama tíma virðist gjáin á milli menningar- og samfélagshópa dýpka. Tilraunir safna og listahátíða hafa gjarnan verið á þá leið að setja upp sýningar tileinkaðar sérstökum jaðarhópum. Sérstakar sýningar eða hátíðir tileinkaðar listsköpun kvenna, fatlaðs fólks, innflytjenda, hinsegin fólks og svo mætti áfram telja. Þrátt fyrir að geta upp að vissu marki aukið sýnileika og rétt hlut þessara jaðarsettu listamanna þá er hættan sú að listamennirnir verði enn jaðarsettari, ekki sé litið á list þeirra sem jafnrétt háa og hefur jafnvel yfirbragð þess að vera sett saman til að sýna hvað furðufuglarnir eru að gera. Enda er yfirskriftin um inngildingu jaðarhópa, Inclusive Nation — stóryrt. Því fagna ég Cycle fyrir tilraun til menningarlegrar fjölbreytni þó hátíðin hafi ekki verið gallalaus. Ég saknaði þess að sjá ekki fleiri listamenn af erlendum uppruna búsetta á Íslandi og eins að einhverjir þeirra listamanna með fötlun sem hafa sýnt á List án landamæra síðustu ár hafi ekki fengið að leggja orð í belg um hvað inngilding þýðir fyrir þau.
Menningarleg fjölbreytni hefur lítið verið til umræðu á Íslandi og því hefði hátíðin verið kjörið tækifæri til þess að kafa dýpra ofan í málið og gefa samræðum meira rými. Hvað þýðir inngilding fyrir skipuleggjendum Cycle og fyrir listasenunni á Íslandi? Af hverju skiptir félagslegt aðgengi máli? Því fyrir mitt leyti snýst inngilding snýst ekki um að tikka í box — listamaður frá hverri heimsálfu, af öllum kynjum og kynhneigðum, með fötlun, annarrar kynslóðar innflytjandi, fólk á flótta og svo mætti áfram telja. Inngildingin á sér stað þegar ólíkar raddir eru leiddar að borðinu og koma að mótuninni frá fyrsta degi. Inngilding er að sama skapi vel heppnuð þegar ólíkir samfélagshópar sækja sýningar.
Pulsa með vísanir í þjóðarminnið
Cycle heldur áfram að þróast, stækka og vaxa ef marka má orð skipuleggjenda og það verður spennandi að fylgjast með hátíðinni. Mörg verkanna voru stórskemmtileg, önnur sitja enn í mér og hópurinn var afar fjölbreyttur. Til viðbótar við þær Julie Edel Hardenberg og Melaine Ubaldo vil ég nefna tónlistarmanneskjuna Adam Christensen sem kom fram á tónleikum í Iðnó. Seiðandi rödd háns sækir enn á mig, af miklum drunga, en hán var samt svo sprenghlægilegt að salurinn var eiginlega í hláturskasti.
Þá hefur fyrrnefnt verk Steinunnar Gunnlaugsdóttur, Litla hafpulsan, vakið mikla athygli í fjölmiðlum. En, þetta er ekki í fyrsta sinn sem pulsan kemur við sögu í verkum Steinunnar. Í Alþingiskosningunum árið 2009 sýndi hún fyrst verkið Lýðræðið er pulsa sem er myndlíking fyrir hve máttvana lýðræðið er. Okkur er boðið í pulsu en fjölbreytnin felst í því hvort þú viljir tómat, sinnep eða steiktan. Áleggin eru flokkarnir og alltaf er pulsa í matinn, sama hvað þú velur. Nú skellir pulsan sér í búning Litlu-Hafmeyjunnar og er framlag Steinunnar til aldarafmælis fullveldis Íslands. Verkið hefur vísanir í þjóðarminnið — pulsan er þjóðarréttur Íslendinga en líka Dana. Hafmeyjan er okkur kunnug úr sögum H. C. Andersen og jafnvel mætti segja að hún sé hluti af danskri arfleið okkar. Nýlenduríkisins Íslands.
Vert er að geta þess að Cycle er ekki alveg lokið. Sýningin Einungis allir í Gerðasafni stendur fram í janúar á næsta ári, á sunnudagskvöldið þann 4. nóvember verður viðburður í Marshall húsinu úti á Granda og hver veit nema Litla hafpulsan verði steypt í brons, okkur Íslendingum til ævarandi áminningar um að þjóðernisvitundin og lýðræðið sjálft, er pulsa.
Pistillinn var fyrst fluttur í Víðsjá á Rás 1 í október 2018.