Blóðmörskeppur og eilífðin
Pistillinn birtist fyrst í Víðsjá á Rás 1 árið 2019.
Söfn eru ekki bara sýningarsalir þó þeir séu óneitanlega það svæði safna sem flestir sækja heim og hugsa um þegar rætt er um söfn og starfsemi þeirra. Söfn starfrækja, í flestum tilfellum gríðarstór, og flókin rými sem fáir leiða hugann að — það eru safnageymslurnar.
Safnageymslurnar eru áskorun sem er algjörlega dulin hinum grunlausa safngesti sem hefur ákveðið að verja sunnudegi sínum í að skoða listaverk. Aðgengi að þeim er takmarkað, og fyrir því eru góðar ástæður. Allt í kringum okkur er að hörna; ég, þú, stóllinn sem þú situr á, vatnslitamyndin eftir barnið þitt sem hangir á ísskápnum. Til þess að tryggja varðveisluskilyrði þarf að skapa hárnákvæmar aðstæður fyrir gripi sem söfnin hafa tekið að sér að varðveita og verja fyrir hvers kyns vá svo sem vatni, birtu, eldi, hverskyns óhreinindum og óværum. Ólíkar aðstæður hentar ólíkum efnum og stöðugt þarf að fylgjast með hrörnunarferlinu, verkefni sem hefur staðið yfir frá því fyrir okkar tíð og heldur áfram eftir að lífi okkar lýkur svo komandi kynslóðir fái að njóta þess sama og við.
Yfirfullar safnageymslur
Starfsfólk í safnaheiminum bisar eins og Sisyphus við steininn; við geymslur sem eru að springa utan af sívaxandi safneigninni — og ef þær eru ekki að springa er aðeins tímaspursmál hvenær svo verður og huga þarf á nýjan leik að auka rýmum eða flutningum. Þá getur list samtímans reynst fleirum en gestum safnanna torræð, og hún valdið þeim sem sinna forvörslu og varðveislu hausverk, enda oft sköpuð úr efnum og miðlum sem vandasamt er að varðveita og gera góð skil fyrir komandi kynslóðir — og eru oft á tíðum ekki einu sinni efnisleg í eðli sínu, eins og til dæmis gjörningar.
Um allan heim eru söfn sem glíma við útblásna safneign, skort á geymslum og fjármagni til þess að reka þær. Safneignir stærstu safna á alþjóðavísu hlaupa á tugum og hundruðum þúsunda verka í hverju og einu. Listasafn Íslands á um 11 þúsund verk og Listsafn Reykjavíkur um 17 þúsund svo dæmi séu tekin. Oft er því fleygt fram að um 90-95% verka sem söfn eiga séu í geymslu.
Sama hvert hið raunverulega hlutfall er, má gera ráð fyrir því að í flestum tilvikum sé mikill meirihluti safneignar í safngeymslum. Sum þeirra líta sjaldan, ef nokkurn tímann, dagsins ljós. Því er víst að á heimsvísu eru milljónir verka, sem talin eru meðal þeirra mikilvægustu í listasögunni, geymd fyrir luktum dyrum. Vandamálið er svo umrætt að eitt listatímaritanna vestanhafs gerði það að 1. apríl gabbi sínu að japanska tiltektardrottningin Marie Kondo hafi verið ráðin til þess að aðstoða við grisjun á safneign MoMA, nútímalistasafnsins í New York. Og þó fréttin væri gabb er vandamálið það ekki.
Það helsta sem söfnin geta gert til að koma í veg fyrir að safneignin haldi áfram að þenjast út er að velja vel þau verk sem keypt eru inn og afþakka gjafir til safnanna. Það leysir þó ekki þann vanda sem mörg söfn, um allan heim, glíma við og það er fjöldi verka sem þegar er kominn inn í eignina. Því þegar verk eru komin inn í safneignina bera söfnin ábyrgð á því að hlúa að þeim og varðveita.
Þá er vandasamt að koma verki úr eigu safnsins og mörg siðferðisleg álitamál sem upp koma þegar það er gert, en afskráning gripa úr safneign kallast grisjun. Samkvæmt safnalögum á Íslandi er óheimilt að farga safngripum nema rík ástæða sé til og strangar reglur eru um grisjun. Er rétt að söfn selji verk úr safneign sinni? Hver og hvernig skal taka ákvörðun um hvaða verk á að fjarlægja úr safneigninni? Hvað verður um hlutina?
Varðveisla árunnar
En það er ekki aðeins plássleysi sem starfsfólk safnanna glímir við. Hvernig varðveitum við samtímalistaverk úr óhefðbundnum efnum og hvernig tryggjum við aðgengi komandi kynslóða að listaverkum sem snúast um ferli en skilja ekki endilega eftir sig efnislegar leifar?
Gefum okkur verk frá hátindi konsept listarinnar á 7. áratugnum. Það var skapað og sýnt í samhengi sem ómögulegt er að endurskapa. Kannski hefur efnið tekið á sig aðra mynd; hrörnað, rýrnað eða skemmst með einhverjum hætti. Er verkið enn það sama í dag? Ef það lítur ekki eins út, sýnt í öðrum aðstæðum, undir öðrum kringumstæðum — í öðrum tíðaranda? Hvernig föngum við og miðlum áru verksins? — en ára er hugtak sem þýski heimspekingurinn Walter Benjamin fjallaði um í ritgerð sinni „Listaverkið á tímum fjöldaframleiðslu sinnar“ árið 1936 og lýsir hvað gerir frummynd að frummynd, hvað gefur henni merkingu og mikilvægi, á tímum þar sem tæknin gerir okkur kleift að fjölfalda, endurskapa, dreifa og miðla með auðveldum hætti.
Blóðmör
Skoðum verk eftir Kristján Guðmundsson sem er í eigu Nýlistasafnsins. Á sýningu, sem bar heitið Skúlptúr, í Gallerí SÚM árið 1970 var 26 blóðmörskeppum dreift um gólf sýningarsalarins. Í hvern blóðmörskepp var búið að stinga pinna með spjaldi sem á voru vélrituð spakmæli. Í safngeymslu Nýlistasafnsins er nú einn af þessum keppum geymdur ásamt pinnanum og spakmælunum, og er nú orðinn steinrunninn. Hvert er listaverkið og hvernig varðveitir Nýlistasafnið verkið? Er verkið falið í því að koma fyrir 26 blóðmörskeppum á sýningargólfi með þessum tilteknu spakmælum — væri þá æskilegt að fara í Sláturfélag Suðurlands og kaupa nýja keppi og sýna þá? Hvað gerist þegar stakur blóðmörskeppurinn, sem er rýr og steinrunninn, er sýndur? Er enn um sama verk að ræða?
Frummyndir og eftirmyndir hafa ekki nefnilega jafn skýr mörk og í fyrstu gæti virst. Áran fjarar út, hún breytist og hún verður til á ný. 26 nýir blóðmörskeppir með spakmælum Kristjáns gætu öðlast áruna og að sama skapi gæti hinn 49 ára blóðmörskeppur Kristjáns öðlast nýja áru.
Það er nefnilega ekki endilega ljóst hvað ætti að varðveita og hvað ekki, hvað er listaverk og hvað ekki. Að varðveita verk getur verið gífurlega flókið og dýrt og erfitt að ákveða hvað í samtíma okkar er þess virði að taka inn í safneign, og skuldbinda sig þar með til þess að varðveita, rannsaka og miðla, fyrir komandi kynslóðir.
Söfn þurfa eflaust á næstu áratugum að leita nýrra leiða og endurhugsa söfnunarstefnur sínar; endurhugsa hvað við varðveitum og hvernig við gerum það.